Íslenskur útflutningur getur þróast í ólíkar áttir, allt eftir því hvaða ákvarðanir verða teknar og til hvaða aðgerða verður gripið á komandi árum. Skortur á gögnum og skýrum viðmiðum getur að sama skapi mótað framtíð útflutningsgreina og þá með ófyrirsjáanlegum hætti. Tilgangur þessara árangursviðmiða er að setja í samhengi þann heildarárangur sem þarf að nást á öllum stefnumarkandi áherslum svo hægt sé að ná því lykilmarkmiði að Íslandi sé þekkt sem leiðandi landi í sjálfbærni. Taka þarf þó fram að gæði viðmiðanna snúast ekki aðalega um það hversu vel eða nákvæmlega efnistök þeirra rætast í framtíðinni, heldur hvort þær leiði til betri ákvarðana í dag.
Þessi greiningarvinna er m.a. afrakstur viðtala við hagsmunaaðila sem hafa víðtæka þekkingu, hver á sínu sviði, er tengjast íslenskum útflutningsgreinum með einum eða öðrum hætti og vill Íslandsstofa þakka öllum þeim sem að verkefninu komu, fyrir framlagið og áhugann.
Við upplýsingaöflun var notast við opinber gögn, vinnustofur með atvinnugreinum og landshlutum, gagnagrunna, sérfræðiráðgjöf og viðtöl við hagaðila. Taka skal fram að árangursviðmið útflutningsstefnunnar eru í stöðugri þróun og ávallt miðað við að þau endurspegli þann ásetning sem stjórnvöld og atvinnugreinar hafa sett sér í útflutningi. Til að mynda eru í vinnslu ýmsar stefnumótanir á vegum stjórnvalda eins og ferðamálastefna, nýsköpunarstefna og orkustefna, svo dæmi séu nefnd, og munu niðurstöður frá þeim uppfæra árangursviðmið útflutningsstefnunnar.
Stefnan nálgast markmið um sjálfbæra þróun sem tryggir samfélaginu og komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði. Með þetta að leiðarljósi gefur að skilja að árangur langtímastefnunnar er nátengdur þeim heimsmarkmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett fram um sjálfbæra þróun. Því er mikill ávinningur og nauðsyn að tengja árangursviðmið stefnunnar við heimsmarkmiðin eins vel og kostur er.
Til viðbótar verða þróaðir mælikvarðar fyrir hvern þjónustuþátt í hlutverki Íslandsstofu sem tengdir eru árangursviðmiðum útflutningstefnunnar.
Eitt lykilmarkmið, fimm höfuðvíddir og árangursviðmið
Ísland hefur talsverða burði til þess að skapa sér enn frekari sérstöðu á sviði sjálfbærni og jafnvel tekið forystu. Það er háleit, en raunsæ framtíðarsýn en til að það geti orðið verður að skilja hvað felst í því að vera sjálfbært land. Sjálfbærni snýst ekki að öllu leyti um umhverfismál heldur einnig aðrar mikilvægar stoðir og drifkrafta.
Þegar um sjálfbæra þróun er að ræða er litið til þriggja meginstoða sem eru samfélag, náttúra og efnahagur. Til að gera nokkuð sjálfbært þarf að hafa allar þrjár stoðirnar í huga og þarf sú stefna sem íslenskur útflutningur setur sér að taka jafnt tillit til þeirra allra. Þetta er forsendan á vali á framtíðar verkefnum og framkvæmdum því annars geta þau ekki verið sjálfbær, t.d. ef þau hafa neikvæð áhrif á samfélagið þrátt fyrir að vera góð fyrir efnahag og „umhverfisvæn“.
Einnig höfum við skilgreint ákveðna drifkrafta fyrir sjálfbærni sem eru nýsköpun og vitund og viðhorf markhóps. Nýsköpun er forsenda fyrir fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og undirstaða samkeppnisstöðu þess. Nýjar lausnir og framfarir gefa okkur einnig tækifæri til að takast á við aðkallandi áskoranir og upphefur orðspor Íslands erlendis. Aukin vitund og bætt viðhorf erlendis gagnvart Íslandi og íslenskum vörum eflir efnahag og samfélag og aukin fræðsla um t.d. ábyrga ferðahegðun verndar náttúru og umhverfi.
Þessar undirstöður og drifkraftar eru flokkaðar sem „höfuðvíddir“ fyrir árangursviðmið í hverri stefnumarkandi áherslu sem vinna í þágu lykilmarkmiðsins að Ísland verði þekkt sem leiðandi land í sjálfbærni fyrir árið 2030.
Í verkefni langtímastefnunnar segir að þróa þurfi skýra mörkun fyrir Ísland og íslenskar útflutningsgreinar og miðla áhrifaríkum sögum sem skapa traust á landi og þjóð, sem er beintengt hlutverki Íslandsstofu. Skipta má hlutverki Íslandsstofu niður í átta þætti.