Fram­kvæmdVinnu­stofur um allt land

Í apríl 2018 mælti utanríkisráðherra fyrir breytingum á lögum um Íslandsstofu sem Alþingi samþykkti um sumarið. Nýjum lögum var ætlað að skerpa á stöðu Íslandsstofu og styrkja hana í hlutverki sínu sem samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um aðgerðir til þess að auka útflutningstekjur og hagvöxt. Í nýjum lögum var Íslandsstofu einnig falið að móta langtímastefnu um aukningu útflutningstekna. Stefnumótunin skyldi kveða á um áherslur í markaðsstarfi Íslands á erlendum mörkuðum, velja markaðssvæði og skilgreina mælanleg markmið til að hægt sé að meta árangur.

Slíkir mælikvarðar og markmið auðvelda stjórnvöldum og atvinnulífi að fylgjast betur með þróun og stöðu útflutningsgreina og styðja við frekari stefnumótun og ákvarðanatöku. Stefnan er mörkuð til fimm ára í senn, en markmiðin eru sett á fimm og tíu ára tímabili. 

Alls hafa um 400 manns komið að gerð þessarar stefnumótunar með beinum hætti í gegnum 13 vinnustofur sem haldnar voru um allt land og með fulltrúum helstu útflutningsgreina landsins.

Í þessari vinnu voru borin kennsl á helstu tækifæri til gjaldeyrissköpunar sem felast í íslensku atvinnulífi og mótuð sameiginlega sýn sem styður við það markmið. Við framkvæmdina var ráðist í ítarlega greiningu á íslenskum útflutningi til síðustu ára og helstu mörkuðum og vörum íslenskra útflutningsfyrirtækja með aðstoð ráðgjafafyrirtækisins Expectus.

Alls var ráðist í sex vinnustofur á vormánuðum í jafn mörgum landhlutum og í kjölfarið fylgdu sjö vinnustofur með mismunandi atvinnugreinum og hagaðilum. Þau gögn sem söfnuðust í vinnustofunum voru nýtt til þess greina samnefnara og sameiginleg stef sem mynda grunn þessarar stefnumótunar. Fyrstu drög að stefnumótuninni voru lögð fyrir Útflutnings- og markaðsráðs sumarði 2019 og á grunni þeirrar endurgjafar varð til endanlega afurð sem var samþykkt og er kynnt hér nú.