Íslandsstofa bauð til kynningarfundar um nýja stefnumótun atvinnulífs og stjórnvalda fyrir íslenskan útflutning 23. október 2019. Langtímastefnumótunin var kynnt á Hilton Reykjavík Nordica fyrir um 200 gestum sem fundinn sóttu. Auk þess fylgdust fleiri með beinni útsendingu frá fundinum á Mbl.is
Stefnumótunin er unnin af Íslandsstofu fyrir hönd utanríkisráðuneytisins í nánu samráði við íslenskar atvinnugreinar. Alls hafa um 400 manns komið að vinnunni með beinum hætti í gegnum 13 vinnustofur sem haldnar voru um allt land og með fulltrúum helstu útflutningsgreina landsins.
Hér að neðan má finna upptökur og glærukynningar frá fundinum.
Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands stjórnaði fundinum. Í ávarpi sínu minntist Ásta m.a. á McKinsey skýrsluna frægu og vísaði í lykilskilaboð hennar um að undirstaða áframhaldandi hagvaxtar fyrir land og þjóð sé öflugur útflutningur. Hún minntist á 1000 milljarða kr. áskoruninina og sagði þessu tengdu: „Hvernig þessum vexti útflutnings er náð skiptir hinsvegar máli. Auk jafnvægis í utanríkisviðskiptum er skjálfbær nýting náttúruauðlinda einnig forsenda þess að hagvöxtur sé ekki tekinn að láni og er því sjálfbærni hér lykilhugtak."
Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður Íslandsstofu ræddi í erindi sínu um breytta starfsemi Íslandsstofu í kjölfar breyttra laga um stofuna sem ætlað er að styrkja hlutverk hennar sem samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda. Nefndi hann að flest stærstu útflutningsfyrirtæki landsins hafi notið liðsinnis Íslandsstofu á undanförnum áratugum og muni vera áframhald þar á. Þá undirstrikaði hann mikilvægi samstarfs fyrir íslenskt viðskiptalíf og sagði m.a.: „Eftir óvissu undanfarinna ára hefur íslenskt efnahagslíf tekið algerum stakkaskiptum og þrátt fyrir niðursveiflu á þessu ári, bendir allt til þess að við verðum komin á hagvaxtarbraut að nýju strax á næsta ári. Við þær aðstæður hefur það verið spennandi verkefni að horfa fram á veginn og kortleggja þau margvíslegu tækifæri sem við okkur blasa sem þjóð. Þar skiptir öllu máli að við vinnum saman að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, atvinnulífið og stjórnvöld."
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra lýsti ánægju sinni með samstarfið við Íslandsstofu og stofnun Útflutnings- og markaðsráðs. „Við höfum lagt áherslu á samstarf við atvinnulífið og endurskipulag Íslandsstofu og nýtt útflutnings- og markaðsráð var þar lykilatriði. Það er því ánægjulegt að sjá þá skýru stefnu sem mörkuð hefur verið og við munum öll leggjast á eitt við að hrinda í framkvæmd. Það eru spennandi tímar fram undan. ” Ræddi hann nauðsyn aðgengis að alþjóðamörkuðum fyrir íslenskan útflutning, og góðra viðskiptasamninga og sagði að þar gegni EES samningurinn lykilhlutverki. Þá talaði Guðlaugur Þór um mikilvægi öflugs markaðsstarfs erlendis og færði gestum fundarins þær jákvæðu fréttir að gerður hafi verið samningur við Elizu Reid, forsetafrú um að starfa með Íslandsstofu að því að kynna Ísland á erlendum vettvangi á völdum viðburðum.
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu og Bergþóra Halldórsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu, kynntu stefnumarkandi áherslur fyrir íslenskar útflutningsgreinar. Áherslurnar spanna vítt svið í íslensku atvinnulífi, snerta bæði hina hefðbundnu útflutningsatvinnuvegi en ná einnig til greina á borð við skapandi greinar, hugvit, nýsköpun og tækni.
Áhersla verður lögð á eftirtalda sex flokka atvinnugreina: orku og grænar lausnir, hugvit, nýsköpun og tækni, listir og skapandi greinar, ferðaþjónustu, sjávarútveg, og sérhæfð matvæli og náttúruafurðir.