Hug­vit, nýsköpun og tækni

Stefnumarkandi áhersla:

Gerum hugvit, nýsköpun og tækni að burðarásum verðmætasköpunar og gerum Ísland að eftirsóttum stað til rannsókna, þróunar, og fjárfestinga

Hugvit er óþrjótandi auðlind á meðan nýting náttúruauðlinda á sér takmörk. Vegna þessa hefur mikil áhersla verið lögð á vöxt hins svokallaða alþjóðageira, þ.e. starfsemi sem byggir á hugviti, nýsköpun og tækni í stað þess að nýta staðbundnar auðlindir. Hér á landi hefur stór hluti hugvits, nýsköpunar og tæknigeirans vaxið úr mikilvægustu auðlindagreinunum, svo sem sjávarútveginum og orkugeiranum eins og fram kemur í stefnumarkandi áherslunni á orku og grænar lausnir. Á þessu sviði er einnig lykillinn að sjálfbærari framtíð.

Á vinnustofum landshluta og atvinnugreina komu sterkt fram óskir um að styðja sérstaklega við hugvit, nýsköpun og tækni og tengja þessa starfsemi og útflutning, vöru og þjónustu betur við mörkun Íslands. Í rýni á mörkun Íslands þóttu nokkur svið falla sérlega vel að bæði ímynd landsins, aðstæðum og sóknarfærum. Þau eru sjávarútvegstækni, líf- og heilbrigðistækni, hátækni og hugbúnaður, leikjaiðnaðurinn og svo orka og grænar lausnir sem fjallað var sérstaklega um. 

Samkeppni um sérfræðiþekkingu, mannauð og fjárfestingar á sviði hugvits, nýsköpunar og tækni er hörð. Til að ná því markmiði að þetta svið verði burðarás verðmætasköpunar á Íslandi er lykilatriði að Ísland bjóði samkeppnishæfar aðstæður fyrir bæði sérfræðiþekkingu og fjárfestingu. Samkeppnin er ekki bara um alþjóðlega sérfræðinga heldur líka þann mannauð sem er hér fyrir. 

Hér undir falla einnig þau tækifæri sem skapast með uppbyggingu svokallaðrar “Aerotropolis” eða miðstöðvar flugsækinnar og alþjóðlegrar starfsemi umhverfis Keflavíkurflugvöll. Slík svæði hafa dregið að sér margvíslegan þekkingariðnað og styrkt samkeppnishæfni viðkomandi svæða. 

Helstu áhersluatriði langtímastefnumótunar fyrir íslenskt hugvit, nýsköpun og tækni:

 • Samstarfsvettvangur um sameiginlega mörkun og markaðssetningu fyrir atvinnugreinar tengdum hugviti, nýsköpun og tækni 
 • Líf- og heilbrigðistækni 
 • Hátækni, upplýsingatækni og þjónusta 
 • Sjávarútvegstækni
 • Leikjaiðnaður 
 • Uppbygging þekkingarþorps/miðstöð flugsækinnar og alþjóðlegrar starfsemi við Keflavíkurflugvöll 
 • Ísland sé eftirsóknarverður staður fyrir sérfræðinga til að búa, starfa og stunda rannsóknir 
 • Erlendar fjárfestingar í fjölbreyttum verkefnum

Aðild Íslandsstofu:

Hlutverk Íslandsstofu er að vera samstarfsvettvangur um sameiginlega mörkun og markaðssetningu, kynna greinarnar, sérstöðu og styrkleika Íslands og kynna sérstaklega tækifæri til samstarfs og fjárfestinga. 

Íslandsstofa hefur það hlutverk að laða til Íslands erlenda sérfræðiþekkingu og styðja þannig við vöxt þekkingarfyrirtækja hér á landi. Kynna þarf samfélagið, umhverfi og tækifæri hér á landi. 

Hlutverk stjórnvalda er að tryggja samkeppnishæft viðskiptaumhverfi með áherslu á að auðvelda viðskipti á Íslandi, gera það meira aðlaðandi að búa og starfa hérlendis og stuðla að því að Ísland verði aðlaðandi kostur fyrir erlenda fjárfestingu í íslensku hugviti, nýsköpun og tækni. 

Mikilvæg markaðssvæði

 1. N-Ameríka / Bandaríkin og Kanada
 2. V-Evrópa / Þýskaland, Holland, Bretland og Norðurlöndin
 3. SA-Asía / Kína, Hong Kong, Singapúr, Japan, S-Kórea og Indland

Á vinnustofum um hugvit, nýsköpun og tækni og erlendar fjárfestingar var lögð mikil áhersla á Norður Ameríku sem lykilmarkaðssvæði fyrir erlendra fjárfestingu, þá aðallega vegna stærðar fjármálamarkaða og öflugra viðskiptatengsla. Athyglisvert var að sjá að ekki gætir sömu hagsmuna milli greina þegar litið er til austur- og vesturstrandar Bandaríkjanna. Á vesturströndinni (Seattle og Kalifornía/Kísildalur) voru helst nefnd tækifæri fyrir upplýsingatækni, sjávarútvegstækni og gagnaver á meðan austurströndin (Boston, New York og Washington DC) kallaði á þekkingariðnað og líftækni með stórum fjármálamörkuðum og viðskiptatengslum.  

Einnig voru talin mörg vaxtatækifæri í Asíu og þá helst í Kína (Shanghai), Hong Kong, Singapúr (og Malasíu), Japan, S-Kóreu og á Indlandi. 

Í Vestur Evrópu eru kjarnamarkaðir Þýskaland, Holland og Bretland þar sem öflug viðskiptatengsl eru við lýði innan EES/ESB löggjafarinnar. Norðurlöndin þykja mikilvægir samstarfsaðilar við að sækja erlenda fjárfestingu þar sem Ísland telst enn sem óþekkt viðskiptaland utan Evrópu og „Nordic“ getur reynst öflug tenging til að ná fætinum inn fyrir dyrnar. Á Norðurlöndunum eru einnig þekkt tengslanet og mikil viðskipti fyrir lögfræði- og sérfræðiþjónustu.

Á vinnustofunum kom fram að fyrirtæki sem starfa við hugvit, nýsköpun og/eða tækni þurfa minni hjálp við inngöngu á nærmarkaði. Kom fram að Íslandsstofa ætti að leggja meiri áherslu á að skapa viðskiptatengsl á nýjum og óþekktari vaxtarmörkuðum fyrir fyrirtækin. Þá þyrfti að vinna að vitundaraukningu (B2C) um Ísland á vettvangi hugvits, nýsköpunar og tækni í N-Ameríku, Kína og Þýskalandi.

Stöðugreining

Núverandi flokkun Hagstofunnar á útflutningstölum fyrir svokallaðan „alþjóðageira“ leggur saman tekjur frá samgöngum, skapandi greinum, rannsóknum og sérfræðiþjónustu. Í heildina nam framlag alþjóðageirans um 243,6 ma. kr til útflutningsverðmæta árið 2018.

Vöru- og þjónustuútflutningur alþjóðageirans 2013 - 2018:

Heimild: Hagstofan
Heimild: Hagstofan

Ef litið er aðeins til þeirra þátta í þjónustuútflutningi sem tengjast rannsóknum og sérfræðiþjónustu, þá námu heildar útflutningsverðmæti 109 ma. kr. árið 2018. Hluti rannsókna- og þróunarþjónustu hefur aukist talsvert frá 2013, eða um 11 milljarða og námu um 15 milljörðum árið 2018. Gjöld fyrir notkun hugverka hafa einnig aukist um 17 milljarða á sama tímabili. Sérfræðiþjónusta hefur heilt yfir dregist saman frá árinu 2013 að undanskilinni viðgerðarþjónustu og tölvuþjónustu sem tengja má helst við gagnaver hér á landi. Vöruútflutningur telur um það bil 54 milljarða í heildina, en ef einungis er tekið tillit til líf- og heilbrigðistækni, sjávarútvegstækni og orkufreks iðnaðar annars en stóriðju, þá nema útflutningstekjur um 42 ma. kr. 

Niðurbrot á þjónustuútflutningi 2013 vs. 2018 fyrir rannsóknir og sérfræðiþjónustu:

Heimild: Hagstofan
Heimild: Hagstofan

Niðurbrot á vöruútflutningi 2018 fyrir hugvit, nýsköpun og tækni
(líf- og heilbrigðistækni, annar orkufrekur iðnaður og sjávarútvegur):

Heimild: Hagstofan
Heimild: Hagstofan

Ekki er nóg að horfa einungis á heildarútflutningsverðmæti þessara greina því eins og fram hefur komið skila þær einnig verðmætum störfum í rannsóknum og þróunarvinnu. Heildarútgjöld íslenskra fyrirtækja til rannsóknar og þróunar námu yfir 35 ma.kr. árið 2017 sem eru um 90% aukin útgjöld frá árinu 2013 og eru nú á svipuðum stað og fyrir efnahagshrunið 2008.

Útgjöld íslenskra fyrirtækja til rannsóknar og þróunar 2013 - 2017:

Heimild: Hagstofan
Heimild: Hagstofan

Á vinnustofu með fagaðilum um hugvit, nýsköpun og tækni kom fram að þau hugtök sem þátttakendur vildu helst að erlendir aðilar myndu tengja við framtíðarsýn Íslands voru sjálfbærni, öryggi, gæði ogframsækni. Á vinnustofu um fjárfestingar bættist stöðugleiki og hreinleiki við. 

Framtíðarsýn fyrir íslenskt hugvit, nýsköpun og tækni:

Niðurstöður eru byggðar á svörum frá atvinnugreinavinnustofu hugvits, nýsköpunar og tækni þann 15. maí 2019, 20 svarendur, 120 orðatillögur
Niðurstöður eru byggðar á svörum frá atvinnugreinavinnustofu hugvits, nýsköpunar og tækni þann 15. maí 2019, 20 svarendur, 120 orðatillögur

Framtíðarsýn fyrir Ísland sem erlendan fjárfestingakost:

Niðurstöður eru byggðar á svörum frá atvinnugreinavinnustofu fjárfestinga þann 29. maí 2019, 24 svarendur, 126 orðatillögur
Niðurstöður eru byggðar á svörum frá atvinnugreinavinnustofu fjárfestinga þann 29. maí 2019, 24 svarendur, 126 orðatillögur

Viðhorfsrannsókn á helstu markaðssvæðum Íslands staðfestir að fólk sér marga kosti við að búa á Íslandi og tengir landið mjög sterkt við sjálfbærni, hreinleika og náttúrufegurð. 

Erlent viðhorft gagnvart umhverfi og samfélagi - Ísland og Svíþjóð:

Heimild: Íslandsstofa (viðhorfsrannsókn meðal neytenda í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku; Maskína febrúar 2019)
Heimild: Íslandsstofa (viðhorfsrannsókn meðal neytenda í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku; Maskína febrúar 2019)

Mesti munurinn á Íslandi annars vegar og samkeppnislöndum okkar hins vegar kom fram þegar spurt var um tengsl við nýja tækni og nýsköpun, nútímalegt og framsækið samfélag og viðskiptaumhverfi þar sem Ísland mælist talsvert lægra. 

Vitund erlendis um nýsköpun og viðskiptaumhverfi - Ísland og Svíþjóð:

Heimild: Íslandsstofa (viðhorfsrannsókn meðal neytenda í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku; Maskína febrúar 2019)
Heimild: Íslandsstofa (viðhorfsrannsókn meðal neytenda í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku; Maskína febrúar 2019)

Á þessu sviði er því sérstakt verk að vinna við mörkun Íslands og miðlun upplýsinga. Skýrari mörkun á sviðum hugvits,nýsköpunar og tækni styður við allt markaðs- og útflutningsstarfs íslenskra fyrirtækja og leggur þannig grunn að aukinni verðmætasköpun. Grundvöllurinn er til staðar í öflugum fyrirtækjum, mannauði og mennta- og rannsóknaumhverfi.

Helstu styrkleikar viðskiptaumhverfis á Íslandi samkvæmt viðtölum við fagaðila í íslenskum útflutningsgreinum:

Mörkun á sviði hugvits, nýsköpunar og tækni styður einnig við stefnu stjórnvalda um nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi og þar með aðgerðir til að laða til landsins beina erlenda fjárfestingu. Sjálfbærni, þekking, nýsköpun, aukin fjölbreytni og virðisauki í íslensku atvinnulífi eru lykilhugtökin í stefnunni. 

Á vinnustofu um erlendar fjárfestingar á Ísland nefndu fagaðilar helst árangur íslenskra fyrirtækja, mannauð, græna orku og EES aðild, sem þá þætti sem draga erlenda fjárfestingu að landinu. Þeir þættir sem fæla hvað mest frá erlenda fjárfestingu voru óstöðugt efnahagsástand, smæð þjóðarinnar, skattar, flókið regluverk og dýrt vinnuafl. 

Niðurstöður vinnustofu um hvað fælir frá og dregur að erlendar fjárfestingar til landsins:

Niðurstöður eru byggðar á svörum frá atvinnugreinavinnustofu fjárfestinga þann 29. maí 2019
Niðurstöður eru byggðar á svörum frá atvinnugreinavinnustofu fjárfestinga þann 29. maí 2019

Sjávarútvegstækni á Íslandi á rætur í sterkum sjávarútvegi og tengslum greinarinnar við rannsóknir og þróun. Greinin er nýsköpunardrifin og virðistilboð hennar fellur afar vel að óskaímynd Íslands. Háþróuð sjálfstýrð kerfi og lausnir fyrir öll skref framleiðsluferilsins eykur bæði verðmæti afurða og dregur úr sóun. Sjávarútvegurinn hefur leitast við að nýta framsæknustu tæknina á hverjum tíma, hámarka framleiðni og nýtingu hráefna. Því kalli hafa íslensk fyrirtæki í sjávarútvegstækni svarað og sækja á alþjóðlegan markað með lausnir sínar og nýsköpun. Segja má að hér á landi sé klasi í sjávartengdri tækni. Nýta má betur styrkleika í ímynd Íslands á borð við sjálfbærni og hreinleika og tengja sterkar við þessa grein ásamt skilaboðunum um hugvit, nýsköpun og tækni.

Sjávarútvegstækni - vaxtarmöguleikar og samsvörun við ímynd:

Líf- og heilbrigðistækni er ört vaxandi geiri á Íslandi. Hér hafa orðið til alþjóðleg fyrirtæki og stórir alþjóðlegir aðilar hafa fjárfest í þessu sviði hér á landi. Áhersla er á aukin lífsgæði og sjálfbæra nýsköpun. Öflugt heilbrigðiskerfi og menntastofnanir hafa getið af sér stór og smá fyrirtæki á sviði heilbrigðistækni, stoðtækni, rannsókna og greininga, og nýjunga í meðferðum og lyfjagjöf.  Hér á landi er bæði reynsla og þekking í framleiðslu samheitalyfja og nú eru hafnar rannsóknir og þróun líftæknilyfja. Ítarlegir gagna- og lífsýnagrunnar á heilbrigðissviði, almennur vilji til þátttöku og stuttar boðleiðir skapa kjöraðstæður fyrir margvíslegar rannsóknir enda hefur alþjóðlegum rannsóknum fjölgað hratt hér á landi.

Hreinleiki íslenskra hráefna úr margvíslegu sjávarfangi og úr ylrækt við stýrðar aðstæður hefur ýtt undir vöxt líftæknigeira sem skapar í mörgum tilfellum mikil verðmæti úr því sem áður var hent. Lausnirnar spanna allt frá meðferðum á sárum til fæðubótarefna.  

Jarðhitinn leggur ekki aðeins grunn að ylræktinni heldur fóstrar hann einnig hitakærar örverur sem búa yfir margvíslegum, óvenjulegum eiginleikum. Búið er að finna marga stofna og er meðal annars leitað ensíma sem nýta má við mikinn hita.  

Almennt hafa fyrirtæki á sviði líf- og heilbrigðistækni ekki nýtt ímynd Íslands í markaðsstarfi. Skýrari mörkun Íslands á sviði sjálfbærni og nýsköpunar gæti skapað virði í tengingu geirans við hinn íslenska uppruna því geirinn er byggður á þekkingargrunni og fellur mjög vel að þeirri mörkun sem að er stefnt. 

Líf- og heilbrigðistækni - vaxtarmöguleikar og samsvörun við ímynd:

Hátækni og hugbúnaður er umfangsmikill geiri nú þegar. Markmið og drifkraftur geirans er að skapa notendavænar tæknilausnir í fremstu röð. Íslensk fyrirtæki, bæði í leikjaiðnaði og fjármálatækni, hafa notið myndarlegra erlendra fjárfestinga. Gervigreind og sýndarveruleiki eru ný svið þar sem íslensk fyrirtæki láta til sín taka. Gagnaverafyrirtækin hafa metnað til að þróa lausnir fyrir sína viðskiptavini og vöxtur í þessum geira skapar tækifæri til þess. 

Hátækni og hugbúnaður - vaxtarmöguleikar og samsvörun við ímynd:

Eins og áður hefur komið fram eru líf- og heilbrigðistækni, sjávarútvegstækni og hátækni allt greinar með mikla vaxtarmöguleika. Þegar eru nokkur stór alþjóðleg félög starfandi á þessu sviði á Íslandi en með takmarkaðri tengingu við íslenskan uppruna. Því er þörf á stuðningi og samstarfi sem miðar að því að skapa ímyndarsamlegð og þannig auka ásýnd gæða og draga að hæfileikafólk. Sjálfbær nýsköpun ætti að vera kjarninn í öllum skilaboðum. 

Góðar alþjóðasamgöngur og umhverfi sem laðar að sér alþjóðlega starfsemi eru þættir sem styðja við þessa stefnumarkandi áherslu. Því er áhugavert að sjá það víðtæka samstarf hagsmunaaðila sem nú er hafið um að þróa svokallað "Aerotropolis" eða þekkingarþorp umhverfis Keflavíkurflugvöll.

Árangursviðmið fyrir hugvit, nýsköpun og tækni