Listir og skap­andi greinar

Stefnumarkandi áhersla

Styrkjum stöðu lista og skapandi greina á alþjóðavettvangi og aukum aðdráttarafl Íslands sem vettvang fyrir skapandi starfsemi

Listir og skapandi greinar hafa afgerandi áhrif á samfélög, lífsgæði íbúa og þá mynd sem aðrir hafa af viðkomandi landi og þjóð. Framsækin og skapandi samfélög eru eftirsóknarverð til búsetu og laða til sín hæfni, þekkingu og fjárfestingu. Skapandi starfsemi og nýsköpun í listum, menningu og atvinnulífi eru nátengdar. Listir og skapandi greinar eru einnig uppspretta útflutningsverðmæta sem væntingar eru til að muni vaxa umtalsvert á næstu árum.

Á vinnustofum landshluta og atvinnugreina kom fram ákall um að styðja við verðmætasköpun lista og skapandi greina með því að gera þessar greinar að hluta af mörkun Íslands. Hönnun, tónlist, kvikmyndagerð, sviðslistir, myndlist og bókmenntir eiga sér sínar eigin kynningarmiðstöðvar. Væntingar eru um að auka megi slagkraftinn fyrir Ísland í heild og þar með gjaldeyristekjur, ekki síst á sviðum á borð við kvikmyndagerð og tölvuleikjageirann þar sem margar skapandi greinar koma saman í hverju verkefni. Einnig er hönnun í miklum vexti, ekki síst vinna hönnuða í þverfaglegum teymum og fjölbreyttum fyrirtækjum.

Helstu áhersluatriði langtímastefnumótunar fyrir íslenskar listir og skapandi greinar:

  • Samstarfsvettvangur um mörkun og markaðssetningu fyrir íslenskar listir og skapandi greinar (hönnun, myndlist, sviðslistir, tónlist, bókmenntir og kvikmyndir)
  • Innlend og erlend kvikmynda- og tónlistarverkefni

Aðild Íslandsstofu:

Ísland, sem skapandi miðstöð, upprunaland menningarafurða og eftirsóknarverður staður til sköpunar á sviði tónlistar, bókmennta, myndlistar, sviðslista og hönnunar er mikilvægt tækifæri. Mikilvægt er að Íslandsstofa vinni náið með kynningarmiðstöðvum og listafólki og starfi sem samstarfsvettvangur um að miðla sögunni erlendis með öflugum markaðsaðgerðum. 

Innlend og erlend kvikmyndaverkefni, nýtt kvikmyndaver í Gufunesi og eftirvinnsla kvikmynda eru mjög stórt útflutningstækifæri þar sem byggt er á fjölda greina innan lista og skapandi greina. Á vinnustofum landshluta og atvinnugreina kom fram að mannafli gæti verið helsta áskorunin og því mikilvægt að Ísland sé aðlaðandi fyrir þessa starfsemi. Samstarfsaðilar hafa tengslin við fagaðila og grasrótina sem verkefnin byggja á. Hlutverk Íslandsstofu er að sjá um eða styðja við kynningu á tækifærunum á þessum sviðum hér á landi og sinna áfram því hlutverki að laða til Íslands  erlend kvikmynda- og sjónvarpsverkefni með þátttöku í sýningum, kvikmyndahátíðum og fundum með erlendum framleiðslufyrirtækjum. 

Mikilvæg markaðssvæði

  1. Norður Ameríka / Bandaríkin og Kanada 
  2. Vestur Evrópa / Bretland, Þýskaland, Frakkland, Spánn og Ítalía 
  3. SA-Asía / Kína, Hong Kong, S-Kórea og Japan 
  4. Norðurlönd 
  5. Ísland – erlendir ferðamenn 
  6. Austur Evrópa / Pólland og Rússland 
  7. Mið- og Suður Ameríka 

Á vinnustofu um listir og skapandi greinar kom fram að helstu markaðssvæðin eru Bretland, Norðurlönd, Þýskaland og að mikil vaxtartækifæri séu Bandaríkjunum, Kanada, Kína og Hong Kong, Japan og Póllandi. Einnig voru nefnd tækifæri á Mið- og Suður-Ameríku. Margir nefndu að ferðamenn á Íslandi sé vannýttur markhópur. Athyglisvert var að sjá hve ólík markaðssvæðin voru milli greinanna en þó var ákveðinn samhljómur um N-Ameríku og V-Evrópu.

Bókmenntir: Bandaríkin, Kanada, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Pólland, Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Finnland. Norrænt samstarf í S-Afríku, Japan, Kína, Ástralíu og Nýja Sjálandi

Hönnun: Ítalía, Bandaríkin, London, Japan, Þýskaland, Holland og Norðurlöndin

Kvikmyndir (alþjóðleg kvikmyndaverkefni á Íslandi): Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Þýskaland

Kvikmyndir (útflutningur á íslenskum kvikmynduðu efni): Norðurlöndin og evrópskt samstarf

Myndlist: Bandaríkin, Sviss, Norðurlöndin og Kína (Shanghai og Beijing)

Sviðslistir: Norðurlöndin, Bandaríkin, Bretland, V-Evrópa, Kanada, Pólland, Japan, Kína og Hong Kong, Ísland (ferðamenn)

Tónlist: Bandaríkin, Kína og Hong Kong, Kanada, Bretland, Norðurlöndin, S-Kórea, Mið-Evrópa (Þýskaland, Austurríki og Pólland), Japan, Mið- og S-Ameríka

Stöðugreining

Frumleiki, framsækni, gæði og einstakt eru þau hugtök sem þátttakendur á vinnustofu lista og skapandi greina vildu að geirinn myndi standa fyrir í framtíðinni. Áherslan er á mörkun Íslands sem miðstöðvar fyrir framsæknar listir og skapandi greinar, bæði sem upprunaland afurða og sem eftirsóknarvert samfélag til að skapa í.

Þegar rýnt var í sérstöðu íslenskra lista og skapandi greina komu m.a. fram þættir eins og sterk náttúrutenging, hið opna samfélag með sveigjanleika og stuttum boðleiðum, framandleiki í huga utanaðkomandi, tengsl milli ólíkra greina, áræðni, flöt valdskipan og íslenska tungumálið.  

Útflutnings- og kynningarmiðstöðvar einstakra greina sinna margvíslegu markaðs- og kynningarstarfi, hver á sínu sviði í nánu samstarfi við grasrótina í íslensku lista- og menningarlífi. 

Íslensk kvikmyndagerð er ekki aðeins uppspretta nýrra íslenskra kvikmynda heldur þjónar geirinn fjölda erlendra kvikmynda- og sjónvarpsverkefna þar sem framleiðendur koma og nýta sér íslenska fagþekkingu og reynslu og 25% endurgreiðslu kostnaðar, í íslenskri náttúru og umhverfi. Jákvæð reynsla af Film in Iceland verkefninu varð innblástur fyrir sambærilegan stuðning við framleiðslu tónlistar á Íslandi undir merkjum verkefnisins Record in Iceland. 

Að mati þátttakenda á vinnustofu um listir og skapandi greinar væri hægt að ríflega fjórfalda gjaldeyristekjur greinanna á næstu tíu árum. Talið er að stór hluti af þeim tekjum geti komið frá innlendum og erlendum kvikmyndaverkefnum og eftirvinnslu kvikmynda. Mörkun Íslands sem eftirsóknarverðs upprunalands og starfsvettvangs framsækinna lista og skapandi greina kemur þar á eftir.

Árangursviðmið fyrir listir og skapandi greinar