Mæli­kvarðarFyrir stefnu­mótun útflutn­ings­greina

Í apríl 2018 mælti utanríkisráðherra fyrir breytingum á lögum um Íslandsstofu sem Alþingi samþykkti um sumarið. Nýjum lögum var ætlað að skerpa á stöðu Íslandsstofu og styrkja hana í hlutverki sínu sem samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um aðgerðir til þess að auka útflutningstekjur og hagvöxt. Í nýjum lögum var Íslandsstofu einnig falið að móta langtímastefnu um aukningu útflutningstekna. Stefnumótunin skyldi kveða á um áherslur í markaðsstarfi Íslands á erlendum mörkuðum, velja markaðssvæði og skilgreina mælanleg markmið til að hægt sé að meta árangur.

Slíkir mælikvarðar og markmið auðvelda stjórnvöldum og atvinnulífi að fylgjast betur með þróun og stöðu útflutningsgreina og styðja við frekari stefnumótun og ákvarðanatöku. Stefnan er mörkuð til fimm ára í senn, en markmiðin eru sett á fimm og tíu ára tímabili. 

„Lykilmarkmiðið er að Ísland verði þekkt sem leiðandi land í sjálfbærni fyrir árið 2028.“

Framtíðarsýn langtímastefnunnar er að Ísland verði þekkt sem leiðandi land í sjálfbærni. Þetta er sá lykilmælikvarði sem allir aðrir undirmælikvarðar miðast við. Á vinnustofum landshluta og atvinnugreina kom fram skýr vilji þátttakenda um að sjálfbærni væri sá ímyndarþáttur sem mikilvægast væri að tengja við Ísland til framtíðar, sem einnig helst vel í hendur við stefnu og áherslur stjórnvalda. 

Ísland hefur talsverða burði til að skapa sér enn frekari sérstöðu á sviði sjálfbærni og getur jafnvel tekið forystu þar. Þetta er háleit, en raunsæ framtíðarsýn en til að þetta geti orðið verður að skilja hvað felst í því að vera sjálfbært land. Sjálfbærni snýst ekki eingöngu um umhverfismál heldur einnig aðrar mikilvægar undirstöður og drifkrafta.  

stefnumótun

Undirstöður sjálfbærni

Þegar rætt er um sjálfbæra þróun er litið til þriggja meginstoða sem eru umhverfi, samfélag og efnahagur og þarf sú stefna sem íslenskur útflutningur setur sér að taka jafnt tillit til þeirra allra. Þetta er forsendan á bakvið val á framtíðar verkefnum og framkvæmdum, því ef þetta stangast á við einhverja af stoðunum getur það ekki stuðlað að frekari sjálfbærni. Stefnan miðar að því að íslenskar útflutningsgreinar minnki umhverfisspor sitt í þágu náttúru og umhverfis, að á Íslandi sé framsækið samfélag sem eftirsótt er til búsetu og atvinnu, þar sé sýnileg verðmætasköpun og aukin útflutningsverðmæti í þágu efnahags.

Stefnumótun

Drifkraftar sjálfbærni

Í mælikvarðavinnunni hafa einnig verið skilgreindir drifkraftar sjálfbærni sem eru nýsköpun og vitund og viðhorf markhóps. Nýsköpun er forsenda fyrir fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og undirstaða samkeppnisstöðu þess. Nýjar lausnir og framfarir gefa okkur einnig tækifæri til að takast á við aðkallandi áskoranir sem lyfta orðspori Íslands erlendis. Aukin vitund og bætt viðhorf erlendis gagnvart Íslandi og íslenskum vörum eflir efnahag og samfélagið og aukin fræðsla um t.d. ábyrga ferðahegðun verndar náttúru og umhverfi. 

Þessar undirstöður og drifkraftar eru flokkaðar sem „höfuðvíddir“ fyrir mælikvarða sem vinna í þágu lykilmarkmiðsins að Ísland verði þekkt sem leiðandi land í sjálfbærni fyrir árið 2028.  

Lykilmarkmið og fimm höfuðvíddir mælikvarða fyrir íslenskar útflutningsgreinar
Lykilmarkmið og fimm höfuðvíddir mælikvarða fyrir íslenskar útflutningsgreinar

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

Við markmiðasetningu langtímastefnunnar er mikilvægt að stuðst sé við alþjóðlega viðurkennda mælikvarða í stað þess að finna upp nýja sem annaðhvort stangast á við eða mæla það sama og aðrir hafa sett fram. Markmið stefnunnar er að hér verði enn sterkari og sjálfbærari atvinnuvegir í útflutningi, öllum til heilla. Langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskar útflutningsgreinar nálgast markmið um sjálfbæra þróun sem tryggirsamfélaginu og komandi kynslóðumviðunandi lífsskilyrði. Með þetta að leiðarljósi gefur að skilja að árangur langtímastefnunnar er nátengdur þeim heimsmarkmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett fram um sjálfbæra þróun. Því er mikill ávinningur og nauðsyn að tengja markmið stefnunnar við heimsmarkmiðin eins vel og kostur er.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

stefnumótun

Þróun mælikvarða fyrir stefnumarkandi áherslur

Eins og áður hefur komið fram inniheldur langtímastefnan sex stefnumarkandi áherslur fyrir íslenskar útflutningsgreinar. Þróun mælikvarða fyrir þessar áherslur er mikilvægt skref í þá átt að tryggja sameiginlegan skilning á því hvaða tilgangi áherslan á að þjóna, hvaða verkefni skal setja í forgang á hverjum tíma og meta hvaða árangur sé æskilegur. Settir verða mælikvarðar fyrir hverja áherslu í fyrrnefndum höfuðvíddum sem gefa a.m.k. 30 mælikvarða, og sem vinna allir að sama lykilmarkmiði, að gera Ísland þekkt sem leiðandi land í sjálfbærni. Nú þegar eru til staðar ýmsir mælikvarðar sem eru vel þekktir og notast er við, en mikilvægt er að tengja og þróa mælikvarðana fyrir hverja áherslu í samstarfi við atvinnugreinar og stjórnvöld.

Þróun mælikvarða fyrir Íslandsstofu

Í verkefni langtímastefnunnar segir að þróa þurfi skýra mörkun fyrir Ísland og íslenskar útflutningsgreinar og miðla áhrifaríkum sögum sem skapa traust á landi og þjóð, sem er beintengt hlutverki Íslandsstofu. Skipta má hlutverki Íslandsstofu niður í átta þætti.

  1. að vera samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að auka útflutningstekjur og hagvöxt,  
  2. að veita alhliða þjónustu og ráðgjöf til allra útflutningsgreina í því skyni að greiða fyrir markaðssetningu og útflutningi á vöru og þjónustu,  
  3. að laða erlenda ferðamenn til landsins með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi,  
  4. að laða erlenda fjárfestingu til landsins, upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um það,  
  5. að styðja við kynningu á íslenskri menningu, vörum og þjónustu erlendis,  
  6. að annast rekstur eigna sem henni kunna að vera lagðar til og samræmast hlutverki hennar samkvæmt lögum þessum, 
  7. að vinna tillögur að langtímastefnumótun atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda, sbr. a-lið, varðandi markaðssetningu og útflutning á íslenskum vörum, þjónustu og menningu, og  
  8. að hrinda í framkvæmd langtímastefnumótun skv. g-lið.   

Þróaðir verða mælikvarðar í samstarfi við sérfræðinga og hagaðila fyrir hvern þjónustuþátt í hlutverki Íslandsstofu sem tengdir eru mælikvörðum í stefnumarkandi áherslum stefnumótunarinnar og sem vinna allir í þágu þess lykilmælikvarða að gera Ísland þekkt sem leiðandi land í sjálfbærni. Við val á mælikvörðum þarf að huga að nokkrum þáttum. Það þarf að vera skýrt hvað á að mæla, til hvers og hvort fyrirliggjandi gögn eða mælingar séu til staðar svo hægt sé að fylgjast með þróun mála. Ef engin gögn eru til þarf að meta hvort fjárfesta þurfi í nýrri gagnasöfnun og hver beri ábyrgð á því verkefni. Stefnt er að því að klára mælikvarða- og markmiðasetningu fyrir bæði stefnumarkandi áherslur og þjónustuþætti Íslandsstofu fyrir lok júní 2020.

Samspil mælikvarða og höfuðvídda
Samspil mælikvarða og höfuðvídda