Orka og grænar lausnir

Stefnumarkandi áhersla

Tökum forystu meðal þjóða í grænum lausnum og sjálfbærri nýtingu auðlinda

Ísland er þegar tengt sjálfbærni í hugum fólks víða um heim. Efnahagslega og samfélagslega mikilvæg starfsemi á borð við orkugeirann og sjávarútveginn leggur mikla áherslu á sjálfbærni og ábyrga nýtingu auðlinda. Orka úr endurnýjanlegum auðlindum er vaxandi verðmæti sem hefur m.a. laðað hingað til lands nýja erlenda fjárfestingu auk þess sem þekking og reynsla á þessu sviði skapar útflutningsverðmæti. Ísland er í þeirri einstöku stöðu að nær öll staðbundin orkuframleiðsla byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum, hvort sem horft er til raforkuframleiðslu eða húshitunar. Framundan er þriðja orkubyltingin sem felur í sér orkuskipti í samgöngum þar sem Ísland er í kjörstöðu. Eftirspurn eftir grænum lausnum eykst hratt á flestum sviðum og íslensk fyrirtæki hafa náð eftirtektarverðum árangri, t.d. í tækni til orkusparnaðar og fullnýtingar hráefna. 

Með markvissum aðgerðum, aukinni kolefnisbindingu og að lokum kolefnishlutleysi getur Ísland orðið leiðandi og fyrirmynd í loftslagsmálum á alþjóðavísu. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld og atvinnulífið að taka höndum saman um að segja söguna og markaðssetja lausnirnar.  

Orkan og græni geirinn voru meðal lykiláherslna sem fram komu á vinnustofum landshluta og atvinnugreina. Þessi áhersla fellur einnig mjög vel að stefnu stjórnvalda í loftlags- og atvinnumálum, framtíðarsýn Norðurlandanna fyrir norrænt samstarf og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Undir þessa áherslu fellur orkugeirinn, nýting endurnýjanlegrar orku og grænar lausnir. Eðli máls samkvæmt er þessi áhersla nátengd áherslunni á að auka hlutdeild hugvits, nýsköpunar og tækni í verðmætasköpun. 

Áherslur langtímastefnumótunar fyrir orku og grænar lausnir:

  • Græanvangur - samstarfsvettvangur um loftslagsmál og grænar lausnir 
  • Gagnaver og önnur orkuháð starfsemi
  • Orkuskipti í samgöngum
  • Nýting vindorku / sjávarfalla
  • Fjölnýting efna- og orkustrauma jarðvarmavera og glatvarmaiðnaðar

Verkefni Íslandsstofu

Til að nýta tækifæri til verðmætasköpunar á sviði orku og grænna lausna eru væntingarnar til Íslandsstofu fyrst og fremst að hafa forystu í samræmdu markaðs- og kynningarstarfi og sjá um að miðla upplýsingum og sögunni um framlag Íslands og virðistilboð landsins.

Mörkun Íslands á sviði sjálfbærni og grænnar orku sem styður við aukin verðmæti fyrir orkuna og útflutning grænna lausna var metið stærsta einstaka tækifærið með vænta aukningu útflutningstekna upp á um 100 milljarða króna á næstu tíu árum. Verkefninu var lýst sem víðtæku samstarfi um að miðla sögunni um stöðu og framlag Íslands til loftslagsmála auk þess að kynna reynslu og þekkingu Íslands á sviði endurnýjanlegrar orku og lausna. Þá var lögð áhersla á að selja græna orku til vaxtagreina sem tengja sig upprunasögu orkunnar og voru HPC eða SuperComputing gagnaver nefnd til sögunnar. 

Meðal mögulegra áskorana var talin hin harða samkeppni um ímynd sjálfbærni, takmörkuð fáanleg orka til nýrra verkefna, afkastageta flutningskerfisins og skortur á hugverkavernd íslenskra lausna. 

Hlutverk Íslandsstofu er að vera framkvæmdaaðili samstarfsvettvangs um loftslagsmál og grænar lausnir og kynna fjárfestum tækifæri á Íslandi. Hagsmunaaðilar sjá um fjármögnun verkefnisins auk eiginlegrar sölu og ráðgjafar, öflunar verkefna, hugverkaverndar og uppbyggingar innviða. 

Fjölnýting efna- og orkustrauma jarðvarmavera og glatvarmaiðnaðar var metið sem mjög verðmætt tækifæri. Nýtingin getur verið á fjölmörgum sviðum eða allt frá hátækni og iðnaðarferlum til ferðaþjónustu. Verkefnið er að skilgreina tækifærin til að byggja upp hringrásarhagkerfi við bæði jarðvarma- og iðjuver og kynna frumkvöðlum og fjárfestum.Meðal áskoranna eru skortur á efnaiðnaði á Íslandi og sú fjárfesting sem þarf til að koma uppbyggingunni af stað. Hagsmunaaðilar þurfa að skilgreina tækifærin, skipuleggja svæði og efna til samstarfs um mótuð virðistilboð fyrir verkefni og starfsemi.

Hlutverk Íslandsstofu er að miðla sögu og stöðu Íslands og kynna tækifærin til fjárfestinga í samstarfi við viðkomandi aðila.  

Orkuskipti í samgöngum var talið stórt tækifæri bæði í formi gjaldeyrissparnaðar og verðmæta sem felast í aðgreiningu Íslands frá samkeppnislöndum þar sem byggt er ofan á sérstöðu landsins í orkumálum. Verkefnið felst í að tryggja aðgengi að orkugjöfum um land allt og stuðla að orkuskiptum hjá stórnotendum á borð við útgerðir, flutningafyrirtæki og bílaleigur. Helstu áskoranir eru aðgengi að fjármagni til uppbyggingar, nýsköpunar og orkulausna. 

Framlag Íslandsstofu fælist í að kynna framgang orkuskipta og tækifæri til fjárfestinga í tæknilausnum í þágu kolefnishlutlauss samfélags.

Nýting vindorku /sjávarfalla er stórt tækifæri sem felst í fjármögnun og uppbyggingu nýorkuvera auk tenginga þeirra við flutningskerfi raforku. Áskoranir eru annars vegar óstöðug framleiðsla og þar með nýting, og hins vegar umhverfisþættir.  

Hlutverk Íslandsstofu væri að kynna tækifæri til fjárfestingar og miðla sögunni af uppbyggingu fleiri endurnýjanlegra orkugjafa. 

Mikilvæg markaðssvæði

  1. Norður Ameríka / Bandaríkin 
  2. Vestur Evrópa / Þýskaland 
  3. Asía/ Kína og Indónesía 
  4. Afríka/ Eþíópía og nágrannalönd 
  5. Austur Evrópa / Ungverjaland, Rúmenía og Búlgaría 

Með tilkomu Parísarsamkomulagsins í loftlagsmálum hafa orðið til mörg ný tækifæri þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum og grænum lausnum. Í Evrópu er mikil áhersla lögð á að finna nýja orkugjafa í stað þeirra sem ganga tilþurrðarog menga, en 75% af orkunýtingu Evrópu kemur frá jarðeldsneyti. Mikill áhugi er í Ungverjalandi, Rúmeníu og Búlgaríu að láta reyna á jarðvarmavirkjanir í staðþess að notagas frá Rússlandi. Einnig eru talin vaxtartækifæri fyrir jarðvarmaorkugeirann í Austur-Afríku (Kenía, Eþíópía, Rúanda og Tansanía) og Suðaustur-Asíu (Kína, Indónesía og Filippseyjar).

Í vinnustofum stefnumótunarvinnunnar með fagaðilum kom fram að vilji sé til að sækja á þessi svæði en þörf er á meiri aðstoð frá sendiráðum og Íslandsstofu til að kynna sig þar í landi. Einnig voru önnur lönd nefnd í þessu samhengi, s.s. Mexíkó og lönd í Mið-Ameríku og Tyrkland. Á sama tíma er samkeppni í jarðvarmalausnum að harðna frá öðrum löndum eins og Nýja Sjálandi og Bandaríkjunum sem eru að sækja á svipuð mið. 

Erlendar fjárfestingar og tækniþekking í fjölnýtingu jarðvarma, svo sem til framleiðslu smáþörunga eða nýtingu koltvísýrings í efnaiðnaði hafa einkum komið frá Norður Ameríku og Evrópu en einnig nýlega frá Kína. Sömu sögu má segja um gagnaver og viðskiptavini þeirra. Áhersla hefur verið lögð á að kynna einstakar aðstæður og tækifæri vegna gagnavera hér á landi í Bandaríkjunum annars vegar og hins vegar á öflugustu mörkuðum Evrópu, einkum Þýskalandi og Bretlandi.  

Flest fyrirtæki í græna geiranum horfa til þróaðra nærmarkaða okkar beggja vegna Atlantshafsins en einnig hefur verið sótt á Asíumarkað, t.d. með orkusparandi lausnir fyrir útgerð. 

Áhugi á stórum orkuháðum verkefnum á borð við framleiðslu kísils fyrir sólarsellur eða koltrefja í þágu umhverfisvænni samgangna og afkastameiri vindorku er bundinn við alþjóðleg fyrirtæki á þessu sviði þar sem tiltölulega fáir framleiðendur eru starfandi. Ísland er þegar á lista þessara aðila yfir vænlega framleiðslustaði svo eftirspurn af þeirra hálfu mun fremur ráðast af þróun og þörf markaðarins en aðgerðum íslenskra aðila. 

Stöðugreining

Fjölmörg vaxtartækifæri tengd orku og græna geiranum komu fram á vinnustofum í landshlutum og með atvinnugreinum. Eins og fram kemur hafa bæði orkugeirinn og verkfræði- og þjónustufyrirtækin vaxið og dafnað, fjölgað starfsfólki og verkefnum. Verkefnin eru fjölbreytt og skiptast í erlend og innlend verkefni. Nýjar vatnsaflsvirkjanir, háhitaboranir, kísilver, gagnaver og þörungarækt svo dæmi séu tekin. Orkufyrirtækin leggja áherslu á fjölnýtingu orku- og efnastrauma frá jarðvarmaverum og bindingu eða nýtingu kolefna. 

Verðmætir viðskiptavinir alþjóðlegra gagnavera, á borð við þýska bílaframleiðandann BMW, leggja beinlínis áherslu á endurnýjanlegan uppruna orkunnar sem knýr og kælir ofurtölvur þeirra. Þörfin fyrir reiknigetu, geymslu og miðlun gagna fer stöðugt vaxandi á sama tíma og kolefnisspor starfseminnar skiptir sífellt meira máli. Orkuháð framleiðsla efna sem umbreyta sólarljósi í raforku, létta farartæki í þágu orkuskipta í samgöngum, draga úr orkunotkun raftækja eða auka afkastagetu vindorkuvera leitast einnig við að lágmarka sótspor sitt.

Hér á landi er blómleg starfsemi fyrirtækja sem leggja áreiðanleg gögn til grundvallar nýrra lausna til orkusparnaðar og orkustýringar. Þá er unnið frumkvöðlastarf við að umbreyta CO2 frá iðnaðarferlum í fljótandi eldsneyti og binda kolefni í jörðu. Lífdísilframleiðsla úr úrgangsfitu og repjuolía fyrir fiskiskip, tækni til að sía koltvísýring úr andrúmslofti, rauntímagögn til að bæta stýringu álvinnslu og tækni til að veiða fisk og botndýr með minna umhverfisspori eru dæmi um starfsemi. 

Íslensk verkfræði- og þjónustufyrirtæki hafa sinnt spennandi verkefnum á löndum á borð við Noreg, Svíþjóð, Ungverjaland, Chile, nokkrum Afríkuríkjum, Grænlandi, Indónesíu og Filippseyjum. Verkefnin spanna frá ráðgjöf, rannsóknum og eftirliti yfir í borun jarðhitahola og mannvirkjagerð og eru tilkomin vegna tengslanets eða orðspors fyrirtækjanna.  

Ísland hefur einnig getið sér gott orð í bæði þróunarsamvinnu og menntun og rannsóknum. Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur verið starfræktur á Íslandi frá 1978 og sérhæfir sig í menntun jarðhitasérfræðinga. Iceland School of Energy býður upp á meistaranám í sjálfbærum orkuvísindum og orkuverkfræði. Geothermal Research Cluster styður rannsóknir og klasasamstarf í jarðhita og aðstoða við fjármögnun rannsókna- og þróunarverkefna. ÍSOR, háskólarnir, orkufyrirtækin og verkfræðistofurnar taka þátt í vísinda- og rannsóknasamstarfi enda gefa sérstakar aðstæður hér á landi erlendum rannsóknaaðilum einstök tækifæri til rannsókna og þróunar.

Í heild sinni er græni geirinn á Íslandi fjölbreyttur en virðistilboð hans er tengt lykilþáttum í kjarnastyrkleikum Íslands og hann getur skipt máli á heimsvísu. Samsvörunin við bæði stefnuna um mörkun Íslands og ímynd landsins erlendis er mikil. Lykilhugtökin eru sjálfbærni, skilvirk auðlindanýting, samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda, arðbær endurnýjanleg orka, hugvit og nýsköpun í grænum lausnum. 

Stærsta verkefnið og jafnframt tækifærið var talið felast í því að tengja fjölbreytta starfsemi á sviði orku og grænna lausna við Ísland og hinn íslenska uppruna. Vaxtarmöguleikar voru metnir mjög miklir og samsvörun við mörkun Íslands góð en mjög misjafnt er hvort tengslin eru nýtt. Saga Íslands um endurnýjanlega orku, grænar lausnir og framlag til loftslagsmála gæti haft mun meiri jákvæð áhrif á vörumerkjasögu fyrirtækjanna og mörkun Íslands sem leiðandi í sjálfbærni styður við upprunasöguna. 

„Umfram endurnýjanleg orka hérlendis dygði til að kolefnisjafna eitt af Eystrasaltsríkjunum miðað við forsendur Kaupmannahafnar um kolefnishlutleysi.“  

Áhugavert er að bera saman orðræðu hér á landi um árangur og stöðu Íslands í loftslagsmálum við opinberar yfirlýsingar og stefnumótun annarra landa. Sem dæmi má nefna markmið Kaupmannahafnar um kolefnishlutleysi árið 2025. Skilgreiningin sem þar er lögð til grundvallar er að framleiðsla endurnýjanlegrar orku sé jöfn því sem borgin notar. Verði framleiðslan meiri en þörf borgarinnar þá nýtist sú umframorka til að leysa af kolaorku annars staðar. Út frá nákvæmlega sömu forsendum er framleiðsla Íslands á endurnýjanlegri orku nú þegar fimm sinnum meiri en heildarlosunin að stórnotendum raforku meðtöldum*. Umfram endurnýjanleg orka hér dygði því til að kolefnisjafna eitt af Eystrasaltsríkjunum m.v. forsendur Kaupmannahafnar um kolefnishlutleysi.  

*Endurnýjanleg raforka er um 19TWst sem jafngildir um 19MTCO2 miðað við kol. Hitunarorkan frá endurnýjanlegum jarðvarma er um 10TWst sem jafngildir um 5MTCO2 miðað við kol. Samtals um 24 MTCO2 á móti heildarlosun með orkuháðum stórnotendum upp á 4,7MTCO2.  

Ávinningurinn af því að tengja lausnir, útflutning og aðgerðir á þessu sviði nánar við mörkun Íslands og stöðu í hugum fólks er margþættur. Bein áhrif eru væntingar um sterkari samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og aukin verðmæti íslensks útflutnings. Alþjóðleg staða Íslands í loftslagsmálum verður sterkari og umræða um loftslagsmálin bæði innanlands og utan getur orðið markvissari. Þá verður til öflugra samstarf um aðgerðir í loftslagsmálum ef atvinnulíf og stjórnvöld taka höndum saman.  

Árangursviðmið fyrir orku og grænar lausnir