Við Íslendingar stöndum á spennandi tímamótum. Eftir óvissu undanfarinna ára hefur íslenskt efnahagslíf tekið algerum stakkaskiptum og þrátt fyrir niðursveiflu á þessu ári, bendir allt til þess að við verðum komin á hagvaxtarbraut að nýju strax á næsta ári. Við þær aðstæður er það spennandi verkefni að horfa fram á veginn og kortleggja þau margvíslegu tækifæri sem við okkur blasa sem þjóð.
Íslandsstofa hefur unnið nýja stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning. Stefnumótunin er unnin fyrir hönd utanríkisráðuneytisins í nánu samráði við íslenskar atvinnugreinar. Alls komu um 400 manns að vinnunni með beinum hætti í gegnum 13 vinnustofur sem haldnar voru um allt land og með fulltrúum helstu útflutningsgreina landsins.
Jákvæð ímynd Íslands á alþjóðavettvangi og sterk mörkun geta skapað umtalsverðan virðisauka fyrir íslenskan útflutning og opnað brautir inn á nýja markaði. Það er því mikilvægur þáttur í stefnumótun útflutningsgreina að móta framtíðarstefnu um mörkun sem byggir á styrkleikum landsins og aðgreiningu, hefur breiða skírskotun fyrir íslenskt atvinnulíf og ýtir undir jákvæða ímynd á erlendum vettvangi.
Samkvæmt lögum um Íslandsstofu skal langtímastefnumótunin móta meginmarkmið þess markaðsstarfs sem Íslandsstofa sinnir á erlendum mörkuðum. Stefnan skal fela í sér markmið og áherslur á einstökum markaðssvæðum og varðandi einstakar atvinnugreinar og fela í sér mælanleg árangursmarkmið. Slíkir mælikvarðar og markmið auðvelda stjórnvöldum og atvinnulífi að fylgjast betur með þróun og stöðu útflutningsgreina og styðja við frekari stefnumótun og ákvarðanatöku.
Íslandsstofa bauð til kynningarfundar um nýja stefnumótun atvinnulífs og stjórnvalda fyrir íslenskan útflutning 23. október 2019. Langtímastefnumótunin var kynnt á Hilton Reykjavík Nordica fyrir um 200 gestum sem fundinn sóttu, en auk þess fylgdust fleiri með beinni útsendingu á Mbl.is