Stefnumótunin sem hér er kynnt byggir á sex stefnumarkandi áherslum. Þær spanna vítt svið í íslensku atvinnulífi, snerta bæði hina hefðbundnu útflutningsatvinnuvegi en ná einnig til greina á borð við skapandi greinar, hugvit, nýsköpun og tækni.
Ísland er þegar tengt sjálfbærni í hugum fólks víða um heim. Efnahagslega og samfélagslega mikilvæg starfsemi á borð við orkugeirann og sjávarútveginn leggur mikla áherslu á sjálfbærni og ábyrga nýtingu auðlinda. Orka úr endurnýjanlegum auðlindum er vaxandi verðmæti sem hefur m.a. laðað hingað til lands nýja erlenda fjárfestingu auk þess sem þekking og reynsla á þessu sviði skapar útflutningsverðmæti.
Hugvit er óþrjótandi auðlind á meðan nýting náttúruauðlinda á sér takmörk. Vegna þessa hefur mikil áhersla verið lögð á vöxt hins svokallaða alþjóðageira, þ.e. starfsemi sem byggir á hugviti, nýsköpun og tækni í stað þess að nýta staðbundnar auðlindir. Hér á landi hefur stór hluti hugvits, nýsköpunar og tæknigeirans vaxið úr mikilvægustu auðlindagreinunum, svo sem sjávarútveginum og orkugeiranum eins og fram kemur í stefnumarkandi áherslunni á orku og grænar lausnir. Á þessu sviði er líka lykillinn að sjálfbærari framtíð.
Listir og skapandi greinar hafa afgerandi áhrif á samfélög, lífsgæði íbúa og þá mynd sem aðrir hafa af viðkomandi landi og þjóð. Framsækin og skapandi samfélög eru eftirsóknarverð til búsetu og laða til sín hæfni, þekkingu og fjárfestingu. Skapandi starfsemi og nýsköpun í listum, menningu og atvinnulífi eru nátengdar. Listir og skapandi greinar eru einnig uppspretta útflutningsverðmæta sem væntingar eru til að geti vaxið umtalsvert á næstu árum.
Íslensk ferðaþjónusta er sú útflutningsgrein sem hefur hvað mest stuðlað að hagvexti Íslands frá efnahagshruni 2008 og náð undraverðum árangri með auknum fjölda ferðamanna allt árið um kring. Í dag stendur atvinnugreinin á ákveðnum tímamótum eftir stöðugt vaxtaskeið. Með þessari þróun fylgja nýjar áskoranir, ásamt tækifærum, og enn frekari krafa á að auka verðmæti á hvern ferðamann til að viðhalda verðmætaaukningu greinarinnar.
Ísland á merkar hefðir og sögu í sjávarútvegi og leiðandi fyrirtæki í greininni nota Ísland með virkum hætti sem tákn um hreinleika og ferskleika. Greinin er líka uppspretta nýsköpunar og blómstrandi þekkingariðnaðar á borð við sjávarútvegstækni, eins og fjallað er um undir stefnumarkandi áherslunni á Hugvit, nýsköpun og tækni. Segja má að sjávarafurðir gegni lykilhlutverki við að móta ímynd Íslands og því er mikilvægt fyrir bæði Ísland í heild og sjávarútveginn að auka enn frekar vægi bæði sjálfbærni og nýsköpunar í mörkun Íslands og greinarinnar.
Rekjanleiki matvæla og tengsl við uppruna þeirra og sögu skapar verðmæti. Hér á landi hafa fyrirtæki á sviði sérhæfðra matvæla og drykkjarvara nýtt sér íslenska upprunann og tengsl við ímynd landsins til aðgreiningar fyrir vörumerki sín á erlendum mörkuðum. Dæmi um þetta eru skyr, íslenskt vatn og drykkjarvörur á borð við bjór og vodka. Framleiðendur húð- og næringarvara úr íslenskum jurtum, steinefnum og smáþörungum tengja afurðir sínar við hreinleika íslenskrar náttúru.